3. October 2018

Gildi lang virkastur á hluthafafundum

Af fjörutíu og þremur tillögum sem lagðar voru fram á hluthafafundum skráðra fyrirtækja í Kauphöllinni frá ársbyrjun 2013 til 15. apríl 2018, lagði Gildi-lífeyrissjóður fram tuttugu og þrjár. Þetta kemur fram í grein eftir Bjarna Magnússon, sérfræðing í fjárhagslegu eftirliti Fjármálaeftirlitsins, sem birtist í tímaritinu Fjármálum sem birtist á vef FME 1. október. Greinin sýnir að Gildi er í fararbroddi þegar kemur að því að innleiða góða stjórnarhætti og auka aðhald í þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn fjárfestir í.

Bjarni rekur í greininni að talsverðar breytingar hafi síðustu ár orðið á hvernig fagfjárfestar beita sér í stjórnum og á hluthafafundum skráðra fyrirtækja. Fagfjárfestar hafi árin fyrir hrun verið mun óvirkari en þeir eru í dag. „Segja má að kaflaskil hafi svo orðið í afskiptum þeirra frá og með árinu 2015. Gildi lífeyrissjóður, sem setti sér nýja hluthafastefnu það ár og fylgdi henni eftir með fjölda tillagna, var þar brautryðjandi“ segir Bjarni og bætir síðar við. „Viðhorfsbreytingar síðastliðinna ára hafa leitt til þess að hluthafar eru í dag tilbúnari til að gagnrýna félög opinberlega, koma með tillögur á hluthafafundum eða koma með breytingatillögur við tillögur stjórna. Þar er Gildi lífeyrissjóður sá aðili sem hefur verið virkastur og komið með flestar tillögur til hluthafafunda skráðra félaga.“

 

Grein Bjarna byggir á rannsókn hans á hluthafastefnum íslenskra fagfjárfesta og framkvæmd þeirra, en niðurstöður hennar er hægt að skoða í heild sinni hér. Það vekur athygli að Bjarni segir það meira en líklegt að aðrir fjárfestar treysti í dag á að Gildi sinni eftirliti með skráðum hlutafélögum og sýni fyrirtækjunum nauðsynlegt aðhald (bls. 61). Aðrir fjárfestar fylgist einfaldlega með því sem Gildi er að gera og fylgja sjóðnum eftir.