Gildi-lífeyrissjóður dregur í efa lögmæti samþykktar hluthafafundar Klakka ehf. síðastliðinn mánudag um starfskjarastefnu félagsins. Starfskjarastefnan fer gegn hluthafastefnu Gildis. Sjóðurinn fagnar að stjórn Klakka hafi snúist hugur og mæli nú með því við hluthafa að fyrirhugaðar kaupaukagreiðslur verði dregnar til baka.
Þetta kemur m.a. fram í bréfi sem Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis hefur sent stjórn Klakka. Í því er lýst óánægju með það verklag sem viðhaft var við framkvæmd hluthafafundarins og breytingar á starfskjarastefnu. Dregið er í efa að samþykkt hluthafafundarins sé lögmæt þar sem bæði beri að fjalla um og samþykkja starfskjarastefnur á aðalfundum einkahlutafélaga. Fundurinn á mánudag var ekki slíkur fundur. Jafnframt sé ekki gert ráð fyrir því í lögum að starfskjarastefnur geti haft afturvirkt gildissvið eða viðmiðanir, líkt og tillagan sem samþykkt var virðist fela í sér.
Að þessu sögðu þá muni Gildi styðja tillögu um að fyrirhugaðar kaupaukagreiðslur verði dregnar til baka.