Gildi-lífeyrissjóður hefur birt
yfirlit um allar atkvæðagreiðslur og tillögur sem fulltrúar sjóðsins hafa lagt fram á aðalfundum skráðra hlutafélaga á árinu. Þar kemur fram að Gildi hefur á árinu 2018 lagt fram bókanir þar sem kallað er eftir skýrari starfskjarastefnum og að útbúnar séu skýrslur um framkvæmd þeirra. Því til viðbótar lagði Gildi fram tillögur varðandi kaup eigin hlutabréfa og stofnun tilnefningarnefnda á grundvelli leiðbeininga um góða stjórnarhætti.
Yfirlitið sýnir einnig hvernig sjóðurinn greiddi atkvæði um þær tillögur sem bornar voru undir hluthafa á aðalfundum og hvernig sjóðurinn ráðstafaði atkvæðum sínum við stjórnarkjör í þeim tilvikum sem ekki var sjálfkjörið í stjórn.
Gildi-lífeyrissjóður
birtir árlega upplýsingar um atkvæðagreiðslur og tillögugerð sjóðsins á aðalfundum skráðra hlutafélaga. Þetta er gert á grundvelli hluthafastefnu sjóðsins til að auka gagnsæi um störf sjóðsins sem hluthafa.
Um hluthafastefnu Gildis
Hluthafastefna Gildis er höfð að leiðarljósi við ákvarðanir sjóðsins um fjárfestingar og segir til um hvernig Gildi hyggst beita sér sem fjárfestir og hvernig sjóðurinn mun fylgja fjárfestingum sínum eftir.
Hluthafastefna Gildis gildir um fjárfestingar sjóðsins í þeim félögum sem sjóðurinn á verulegan eignarhlut í. Í samskiptum Gildis við einstök félög er ávallt gætt að ákvæðum laga um innherjaupplýsingar og reglum samkeppnislaga. Að jafnaði er stofnað til samskipta við formenn stjórna viðkomandi félaga.
Lögð hefur verið áhersla á að tillögur fyrir hluthafafundi séu vel rökstuddar og ekki umfangsmeiri en ástæða er til. Sérstaklega á þetta við þegar um er að ræða ráðstöfun hlutafjár, s.s. varðandi hækkun hlutafjár, kaup eigin hlutabréfa og veitingu kauprétta. Þá er hvatt til þess að starfskjarastefnur séu skýrar og greinargóðar og að viðeigandi upplýsingar séu veittar um framkvæmd þeirra.