16. April 2021

Ársfundur Gildis 2021

Um 130 tóku þátt í rafrænum ársfundi Gildis 2021 sem fram fór í gær, fimmtudag. Fundinum var streymt á íslensku og ensku, kosningar voru rafrænar og fundargestum gafst tækifæri til að senda fyrirspurnir á forsvarsmenn sjóðsins í gegnum kerfi fundarins. Það var fyrirtækið Sonik sem sá um útsendingu fundarins en Hollenska fyrirtækið Lumi sá um tæknilegar lausnir.

Á fundinum fóru formaður og framkvæmdastjóri sjóðsins yfir rekstur Gildis og afkomu á árinu 2020. Heildareignir sjóðsins í árslok námu 764,1 milljarði króna en voru 661,1 milljarður króna í byrjun ársins og hækkuðu því um rúmlega eitt hundrað milljarða milli ára. Hrein nafnávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins nam 13,6% og hrein raunávöxtun 9,7%. Tryggingafræðileg staða sjóðsins, sem var jákvæð um 3,7% í upphafi ársins var jákvæð um 4,0% í árslok.

Sjóðurinn greiddi rúma 19,3 milljarða króna í lífeyri á árinu 2020, þar af 12,3 milljarða í ellilífeyri og 5,7 milljarða í örorkulífeyri.

Breytingar á samþykktum


Boðaðar breytingar á samþykktum sjóðsins voru staðfestar á ársfundinum. Breytingar voru gerðar á  á greinum 4.1 og 4.2 þar sem skýrt var við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. Sú breyting kom meðal annars til vegna kröfu frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Einnig voru gerðar breytingar á á greinum 16.2 og 3.1 sem gengu út á að iðgjöld sem greidd eru af sjóðfélögum sem eru yngri en 16 ára og eldri en 70 ára renna nú í séreignardeild sjóðsins í stað þess að sjóðurinn endurgreiði þau eins og gert hefur verið fram að þessu.

Skipan stjórnar og kosning í launanefnd


Ný stjórn var kosin á fundinum og er hún þannig skipuð:
Fulltrúar aðildarfélaga launamanna:


  • Árni Bjarnason

  • Margrét Birkisdóttir

  • Margrét Valdimarsdóttir (ný í stjórn)

  • Stefán Ólafsson


Fulltrúar samtaka atvinnulífsins:


  • Áslaug Hulda Jónsdóttir

  • Freyja Önundardóttir

  • Gylfi Gíslason

  • Sverrir Sverrisson


Stjórn hefur þegar skipt með sér verkum og er Gylfi Gíslason formaður og Stefán Ólafsson varaformaður.

Fyrir fundinum lá tillaga um fulltrúa í nefnd um laun stjórnarmanna. Þar var Davíð Þorláksson tilnefndur sem fulltrúi atvinnurekenda en Gundega Jaunlinina og Trausti Ingólfsson sem fulltrúar launamanna. Á fundinum bauð Valgerður Árnadóttir sig fram í nefndina og því fór fram kosning meðal fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í fulltrúaráði Gildis. Niðurstaðan var sú að Valgerður, Gundega og Davíð munu skipa nefndina fram að ársfundi 2022 auk stjórnarformanns Gildis (nú Gylfi Gíslason).

Aðrar breytingar og framkvæmd fundarins


Á fundinum var ný starfskjarastefna sjóðsins kynnt og staðfest. Einnig var staðfest að Deloitte ehf. verður áfram endurskoðandi sjóðsins. Að lokum þá höfnuðu fundarmenn tillögu til ályktunar frá Erni Pálssyni, sem sneri að því að fela stjórn sjóðsins að hefja viðræður við aðra lífeyrissjóði um stofnun stýrihóps um erlendar fjárfestingar til þess að lækka kostnað vegna umsýsluþóknana.

Fundarstjóri var Guðbjörg Helga Hjartardóttir, lögmaður hjá Logos og fundarritari Árni Hrafn Gunnarsson, lögfræðingur Gildis.

Fundargögn: