Nýir sjóðfélagar

Allir launþegar greiða iðgjöld frá 16 ára aldri en réttindi í lífeyriskerfinu byggja á þessum greiðslum. Ef þú ert nýliði á vinnumarkaði eða hefur nýlega greitt iðgjald til Gildis í fyrsta sinn viljum við hér útskýra hvað það þýðir:

Gildi-lífeyrissjóður tryggir tekjur eftir að starfsævi lýkur og ef þú þarft að hætta að vinna vegna veikinda eða slyss. Einnig eru maki og börn tryggð ef þú fellur frá. Sjóðurinn aðstoðar þig við að hefja séreignarsparnað og ávaxtar sparnaðinn fyrir þig. Hjá sjóðnum er einnig hægt að fá hagstæð fasteignalán. Við hvetjum þig til að fylgjast með réttindum þínum á sjóðfélagavef Gildis (sjodfelagavefur.gildi.is) og kanna reglulega hvort iðgjöld berast ekki örugglega á tilsettum tíma.


Lífeyrisgreiðslur skiptast í fjóra flokka

  • Ellilífeyrir er launagreiðsla úr lífeyrissjóði eftir að starfsævi lýkur vegna aldurs og er lífeyririnn ævilangur. Hefja má töku lífeyris þegar 60 ára aldri er náð en almennur lífeyrisaldur vegna starfsloka er 67 ár.
  • Örorkulífeyrir er greiddur til sjóðfélaga sem missa starfsorku vegna veikinda eða slyss á starfsævinni.
  • Makalífeyrir er greiddur til eftirlifandi maka við fráfall sjóðfélaga.
  • Barnalífeyrir er greiddur til barna látinna sjóðfélaga og barna örorkulífeyrisþega.


Fasteignalán

Gildi veitir sjóðfélögum hagstæð fasteignalán. Lántakendur geta valið um mismunandi lánamöguleika, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.


Séreign

Auðvelt er að hefja séreignarsparnað hjá Gildi og geta sjóðfélagar valið um þrjár mismunandi fjárfestingarleiðir. Með séreignarsparnaði leggur þú til hliðar 2–4% af launum í hverjum mánuði og færð 2% mótframlag (launahækkun) frá vinnuveitanda. Ráðstöfun séreignarsparnaðar er sveigjanleg, úttekt skerðir ekki tilteknar greiðslur frá TR og getur þar með aukið ráðstöfunartekjur á efri árum. Séreign er hægt að nota skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign og til að ráðstafa inn á höfuðstól fasteignaláns. Séreignarsparnaður erfist.


Tilgreind séreign

Flestum sjóðfélögum býðst að ráðstafa allt að 3,5% af lífeyrisiðgjaldi í tilgreinda séreign en um hana gilda sambærilegar reglur og um hefðbundna séreign. Nauðsynlegt er að skoða kosti og galla tilgreindrar séreignar vel áður en sótt er um en eftirfarandi er meðal þess sem hafa þarf í huga:

  • Réttindi í hinu hefðbundna lífeyriskerfi minnka, sem þýðir að ævilangur ellilífeyrir, örorkulífeyrir og makalífeyrir verður lægri en ella.
  • Tilgreind séreign hentar í flestum tilvikum frekar eldri sjóðfélögum en þeim yngri.
  • Margar fjárfestingarleiðir eru í boði hjá lífeyrissjóðum, bönkum og erlendum vörsluaðilum. Kostnaður við þessar leiðir er afar mismunandi og eru sjóðfélagar hvattir til að kynna sér kostnað mismunandi fjárfestingarleiða vel.
  • Dæmi eru um fjárfestingarleiðir sem henta illa þeim sem vilja nýta þennan sparnað við kaup á fyrstu fasteign.