22. janúar 2024

Skýrsla um framkvæmd hluthafastefnu Gildis-lífeyrissjóðs

Gildi-lífeyrissjóður birtir nú í fyrsta skipti á vef sínum ítarlega samantekt um framkvæmd hluthafastefnu sjóðsins á árinu 2023 og hvernig Gildi beitti sér sem hluthafi í skráðum félögum.

Gildi er stór fagfjárfestir á íslenskum markaði og sem slíkur getur hann haft mikil og fjölbreytt áhrif. Sjóðurinn tekur þessa stöðu sína og ábyrgð sem stór hluthafi alvarlega og hefur síðustu ár lagt áherslu á að móta hluthafastefnu sína og fylgja henni eftir. Hluti af verklagi sjóðsins síðustu ár hefur verið að birta á vef sínum yfirlit yfir allar atkvæðagreiðslur sjóðsins á aðal- og hluthafafundum ásamt þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram. Sjóðurinn hefur birt slíkar upplýsingar á heimasíðu sinni frá árinu 2016. Skýrsla um framkvæmd hluthafastefnu sem nú er birt kemur til viðbótar við þá upplýsingagjöf.

Gildi hefur lagt áherslu á það að yfirfara m.a. stjórnarhætti, starfskjarastefnur og upplýsingagjöf skráðra félaga og móta samskipti sjóðsins við stjórnir og stjórnendur skráðra félaga. Á grundvelli þeirrar vinnu beitir Gildi sér fyrir því að bætt sé úr því sem sjóðurinn telur að betur megi fara.

Framkvæmdastjóri Gildis annast framkvæmd hluthafastefnunnar í samráði við stjórn og starfsmenn sjóðsins.

Skýrsla um framkvæmd hluthafastefnu 2023

Listi yfir hvernig Gildi hefur beitt sér á aðal- og hluthafafundum.