16. október 2023

Rósa Björgvinsdóttir ráðin forstöðumaður eignastýringar Gildis

Rósa Björgvinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður eignastýringar Gildis og mun hún hefja störf hjá sjóðnum á næstu vikum.

Rósa hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði en undanfarin ár hefur hún starfað sem forstöðumaður skuldabréfa hjá Landsbréfum hf. Áður starfaði Rósa meðal annars sem sjóðstjóri skuldabréfasjóða og lausafjársjóða hjá Landsvaka (sem síðan varð Landsbréf) og þar áður við áhættugreiningu og rekstur á Eignastýringasviði Landsbankans. Hún hefur auk þess sinnt kennslu á undirbúningsnámskeiði til prófs í verðbréfaréttindum og dæmatímakennslu við Háskólann í Reykjavík.

Rósa er með B.Sc í viðskiptafræði með áherslu á fjármál og hagfræði frá Háskólanum í Reykjavík, og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá sama skóla. Hún hefur einnig hlotið vottun frá PRI í ábyrgum fjárfestingum og lokið verðbréfaréttindaprófi.