Þegar skilagrein er send inn á rafrænan hátt er hægt að láta kröfu myndast í banka um leið og skilagreinin er send til sjóðsins.
Bankakröfurnar myndast eingöngu samkvæmt innsendum skilagreinum. Þegar skilagreinin hefur verið yfirfarin af sjóðnum getur komið í ljós misræmi á milli innsendrar skilagreinar og yfirfarinnar skilagreinar. Ekki myndast ný krafa í netbanka vegna þess.
Ef iðgjöldin eru greidd eftir eindaga reiknast dráttarvextir en ekki myndast krafa vegna þeirra í netbanka.
Kröfur eru í netbanka þar til daginn eftir eindaga en þó aldrei skemur en 10 daga eftir stofnun.
Launagreiðandi ber ábyrgð á greiðslu iðgjalda til sjóðsins, einnig þó að krafa myndist ekki í netbanka eða falli þar niður.
Ef eldri iðgjöld eru í vanskilum þá gildir eftirfarandi:
- Séu vanskil á eldri iðgjöldum, sem ekki hafa verið send til löginnheimtu, er greiðslu á bankakröfu ráðstafað inn á eldri iðgjöld. Fyrst til greiðslu áfallins kostnaðar og dráttarvaxta og síðan inn á höfuðstól eins og til fellur.
- Séu vanskil á eldri iðgjöldum sem send hafa verið til löginnheimtu þegar bankakrafa er greidd, er greiðslu ráðstafað inn á eldri vanskil svo sem greinir í 1. tölulið séu slík vanskil til staðar, en annars inn á iðgjöld samkvæmt viðkomandi bankakröfu/skilagrein. Gildi-lífeyrissjóði er þó ávallt heimilt að ráðstafa greiðslunni til lækkunar á kröfu sem sætir löginnheimtu, sbr. nánar gr. 9.10. í samþykktum Gildis-lífeyrissjóðs.