Niðurstöður ársfundar Gildis 2022
Um sjötíu og fimm mættu á ársfund Gildis 2022 sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær, fimmtudag. Fundinum var einnig streymt á íslensku og ensku.
Á fundinum fóru formaður og framkvæmdastjóri sjóðsins yfir rekstur Gildis og afkomu á árinu 2021. Heildareignir sjóðsins í árslok námu 916,1 milljarði króna en voru 764,1 milljarður króna í byrjun ársins og hækkuðu því um 152 milljarða milli ára. Ávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins á árinu var afar góð en hrein nafnávöxtun nam 17,8% og hrein raunávöxtun 12,4%. Tryggingafræðileg staða sjóðsins, sem var jákvæð um 4,0% í upphafi ársins var jákvæð um 1,4% í árslok. Það að tryggingafræðileg staða lækki þrátt fyrir jafn góða ávöxtun og raun ber vitni skýrist af því að sjóðurinn hefur tekið upp nýjar lífslíkutöflur sem hafa áhrif á tryggingafræðilega stöðu hans.
Sjóðurinn greiddi rúmlega 21 milljarð króna í lífeyri á árinu 2021, þar af tæplega 13,5 milljarða í ellilífeyri og 6,2 milljarða í örorkulífeyri.
Breytingar á samþykktum
Fyrirliggjandi breytingar á samþykktum sjóðsins voru staðfestar á ársfundinum. Megin breytingarnar voru gerðar til að bregðast við hækkandi lífaldri sjóðfélaga, en þær felast í því að teknar eru nýjar dánar- og efirlifendatöflur hjá sjóðnum. Ítarlega greinargerð þar sem gerð er grein fyrir aðdraganda breytinganna og áhrifum hennar má finna hér.
Aðrar breytingar á samþykktum Gildis sneru að því að fella út aðild Félags hársnyrtisveina að sjóðnum, en félagið hefur sameinast FIT (Félagi iðn- og tæknigreina). Einnig var opnað fyrir heimild til að senda yfirlit til sjóðfélaga með rafrænum hætti verði slíkt heimilað í lögum. Að lokum voru gerðar breytingar á því hvernig farið verður með iðgjöld sjóðfélaga sem náð hafa 70 ára aldri. Hægt er að kynna sér allar breytingar sem gerðar voru á samþykktum sjóðsins hér.
Á fundinum kom fram breytingatillaga við tillögur stjórnar á samþykktum frá Bjarna Guðmundssyni, tryggingastærðfræðingi og sjóðfélaga í Gildi. Tillagan var borin undir atkvæði fundarins og var henni hafnað.
Skipan stjórnar
Á fundinum hurfu þær Áslaug Hulda Jónsdóttir og Margrét Birkisdóttir úr stjórn sjóðsins, en báðar hafa setið þar um nokkurra ára skeið. Í stjórn voru í þeirra stað kjörnar Bjarnheiður Hallsdóttir og Gundega Jaunlinina. Kolbeinn Gunnarsson hætti á fundinum sem varamaður í stjórn en í hans stað var kjörinn Eyþór Þ. Árnason.
Eftir fundinn er stjórn Gildis þannig skipuð:
Fulltrúar aðildarfélaga launamanna:
- Árni Bjarnason
- Gundega Jaunlinina (ný í stjórn)
- Margrét Valdimarsdóttir
- Stefán Ólafsson
Fulltrúar samtaka atvinnulífsins:
- Bjarnheiður Hallsdóttir (ný í stjórn)
- Freyja Önundardóttir
- Gylfi Gíslason
- Sverrir Sverrisson
Aðrar kosningar og framkvæmd fundarins
Fyrirliggjandi tillaga um fulltrúa í nefnd um laun stjórnarmanna var staðfest á fundinum. Kolbeinn Gunnarsson var tilnefndur sem fulltrúi launamanna en SA tilnefndi Davíð Þorláksson og Stefaníu Kolbrúnu Ásbjörnsdóttur. Auk þess situr formaður stjórnar í nefndinni.
Á fundinum var starfskjarastefna sjóðsins kynnt og staðfest en einnig var farið yfir helstu atriði hluthafastefnu og fjárfestingarstefnu Gildis. Einnig var staðfest að Deloitte ehf. verður áfram endurskoðandi sjóðsins.
Fundarstjóri var Guðbjörg Helga Hjartardóttir, lögmaður hjá Logos og fundarritari Bjarni Gíslason, sérfræðingur í eignastýringu hjá Gildi.
Fundargögn
- Kynningarglærur frummælenda
- Ávarp stjórnarformanns
- Tillögur til breytinga á samþykktum
- Greinargerð með tillögum til breytinga á samþykktum
- Álitsgerð um lögmæti tillagna til breytinga á samþykktum
- Ársskýrsla Gildis 2021
- Starfskjarastefna Gildis
- Fundargerð ársfundar
- Proposal for an amendment to the Articles of Association