Fjárfestingarstefnur fjárfestingarleiða
Samtryggingardeild | Séreign Framtíðarsýn 1 | Séreign Framtíðarsýn 2 | Séreign Framtíðarsýn 3 | |
---|---|---|---|---|
Skuldabréf & innlán | 47,0% | 65,0% | 80,0% | 100,0% |
Hlutabréf | 52,0% | 35,0% | 20,0% | 0,0% |
Aðrar fjárfestingar | 1,0% | 0,0% | 0,0% | 0,0% |
Samtals | 100% | 100% | 100% | 100% |
Í fjárfestingarstefnu samtryggingardeildar Gildis fyrir árið 2022 er lagt upp með að auka við samanlagt vægi hlutabréfa og draga á móti úr samanlögðu vægi skuldabréfa. Hlutfall innlendra hlutabréfa og skuldabréfa með ábyrgð ríkisins er hækkað frá fyrri stefnu en á móti lækkar viðmið stefnunnar fyrir veðskuldabréf, skuldabréf fyrirtækja og erlendra skuldabréfa. Áfram er þó lögð áhersla á að auka við vægi veðskuldabréfa og skuldabréfa fyrirtækja frá því sem nú er. Undir aðrar fjárfestingar í stefnunni heyra erlendir fasteignasjóðir og erlendir innviðasjóðir, auk erlendra vogunarsjóða sem eru í innlausnarferli. Í stefnunni er lagt upp með að vægi eigna í erlendri mynt verði 39% og er það óbreytt frá fyrri stefnu.
Í fjárfestingarstefnu séreignardeilda er vægi leiðanna í hlutabréfum og skuldabréfum óbreytt. Framtíðarsýn 1 er þannig að jafnaði með 65% safnsins í skuldabréfum og 35% í hlutabréfum og Framtíðarsýn 2 er að jafnaði 80% í skuldabréfum og 20% í hlutabréfum. Framtíðarsýn 3 fjárfestir áfram einungis í verðtryggðum innlánum. Þær breytingar eru gerðar á fjárfestingarstefnu Framtíðarsýnar 1 og 2 að þessu sinni að dregið er úr vægi erlendra hlutabréfa, skuldabréfa með ábyrgð ríkisins og erlendra skuldabréfa. Á sama tíma er aukið við vægi innlendra hlutabréfa, skuldabréfa banka og sparisjóða og skuldabréfa fyrirtækja. Markmið um vægi eigna í erlendri mynt er óbreytt frá fyrri stefnu eða 26% í tilfelli Framtíðarsýnar 1 og 18% hjá Framtíðarsýn 2.