Algengar spurningar:
- Get ég fengið lán hjá Gildi?
Allir sem greitt hafa iðgjöld hjá Gildi eiga rétt á að sækja um lán. Umsókn er svo metin með tilliti til aðstæðna og öllum svarað eins fljótt og verða má.
- Hver eru kjörin á lánum hjá Gildi?
Lánakjör hjá Gildi eru með þeim hagstæðustu sem völ er á og geta sjóðfélagar valið á milli nokkurra mismunandi leiða eftir því hvað hentar hverjum og einum.
- Hvað ef ég bý erlendis?
Á hverju ári þurfa þeir sem búa erlendis og fá elli-, maka- og/eða barnalífeyri greiddan frá sjóðnum að senda Greiðslustofu lífeyrissjóða svokallað lífsvottorð til staðfestingar dvalar í viðkomandi landi. Viðeigandi yfirvöld á hverjum stað; þjóðskrá, bæjarskrifstofur, skattstofa eða aðrir opinberir aðilar gefa út slíkt vottorð. Það þarf að berast sjóðnum fyrir 20. apríl ár hvert. Sjóðfélagar sem búa erlendis þurfa að koma upplýsingum um heimilsfang sitt til Gildis.
Sjóðfélagar sem búa erlendis og fá greiddan örorkulífeyri, þurfa að senda Greiðslustofu lífeyrissjóða afrit af staðfestu skattframtali frá búsetulandi vegna ársins áður. Það þarf að berast í síðasta lagi 20. ágúst svo örorkugreiðslur haldi sér.
- Hver er munurinn á almannatryggingakerfinu (Tryggingstofnun) og lífeyrissjóðakerfinu?
Réttindi úr almannatryggingakerfinu tengjast búsetu á Íslandi. Greiðslur koma úr ríkissjóði og eru föst fjárhæð óháð fyrri tekjum lífeyrisþega. Aftur á móti eru greiðslurnar háðar þeim tekjum sem lífeyriþegi kann að hafa samhliða greiðslum frá Tryggingastofnun.
Lífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeildum lífeyrissjóða ráðast af áunnum réttindum hvers og eins. Endanleg fjárhæð ræðst af þeim iðgjöldum sem sjóðfélagi greiðir á starfsævinni og af afkomu sjóðsins.
Séreignarsparnaður er valfrjáls þar sem launþegar og sjálfstæðir atvinnurekendur geta greitt viðbót við lögbundið iðgjald. Launþegi sem leggur 2-4% fyrir mánaðarlega af launum sínum fær 2% viðbótarframlag frá vinnuveitanda sem í reynd er þá hrein launauppbót.
- Get ég séð hjá hvaða sjóðum ég á réttindi?
Í Lífeyrisgáttinni á sjóðfélagavef Gildis er hægt að sjá áunnin réttindi hjá samtryggingarsjóðum sem greitt hefur verið í.
- Hvað fæ ég greitt úr lífeyrissjóði?
Ellilífeyrir er greiddur til æviloka í samræmi við áunnin réttindi hvers og eins og er því mismunandi milli einstaklinga.
Ólíkt séreignarsparnaði þá felur lögbundið lífeyrisiðgjald ekki í sér tiltekna inneign sem lögð hefur verið fyrir, heldur byggir það upp réttindi sem fólk ávinnur sér á starfsævinni.
- Hvað fæ ég út úr því að greiða í lífeyrissjóð?
Með því að greiða í lífeyrissjóð ávinnur fólk sér ýmis réttindi. Þegar þar að kemur tryggir iðgjaldið ellilífeyri til æviloka en einnig örorku-, barna- og makalífeyri ef svo ber undir.
- Þarf ég að borga í lífeyrissjóð?
Frá 16 – 70 ára aldurs er öllum launþegum og sjálfstæðum atvinnurekendum skylt að greiða iðgjald í lífeyrissjóð, að lágmarki 12% af heildarlaunum. Launþegi leggur þá til 4% og vinnuveitandi að lágmarki 8%. Hvort tveggja er reiknað út frá launum fyrir skatt.
Í júlí 2016 var mótframlag flestra sjóðfélaga, þar á meðal þeirra sem fá greidd laun samkvæmt kjarasamningi Alþýðusamband Íslands og fleiri við Samtök atvinnulífsins, hækkað í 8,5%. Í júlí árið 2017 hækkaði mótframlagið í 10% og síðan mun það hækka í 11,5% í júlí 2018.
- Hvað er barnalífeyrir?
Ef sjóðfélagi fellur frá geta börn hans sem eru innan við 18 ára, átt rétt á barnalífeyri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
- Hvað er makalífeyrir?
Ef sjóðfélagi fellur frá á eftirlifandi maki rétt til lífeyris í a.m.k. fimm ár. Réttindin byggjast á hjúskap með sjóðfélaga eða óvígðri sambúð sem staðið hefur í a.m.k. tvö ár fyrir andlátið.
- Hvað er örorkulífeyrir?
Við skerta starfsgetu og tekjuskerðingu vegna örorku getur sjóðfélagi átt rétt á endurhæfingar- eða örorkulífeyri. Til þess þarf örorkan að vera metin 50% eða meira til að minnsta kosti hálfs árs og eru greiðslurnar tekjutengdar.
- Hvað er ellilífeyrir?
Ellilífeyrir er framfærslufé sem fólk fær greitt frá almannatryggingum eða lífeyrissjóðum þegar tilteknum aldri er náð. Greitt er til æviloka og ræðst fjárhæðin frá lífeyrissjóði af þeim iðgjöldum sem sjóðfélagi greiðir á starfsævinni og af afkomu sjóðsins.
- Hvað er lífeyrir?
Lífeyrir er framfærslufé sem einkum aldraðir, öryrkjar og börn eiga rétt á við tilteknar aðstæður.
- Verð ég að greiða iðgjald í Gildi?
Tíu stéttarfélög eiga aðild að Gildi auk Samtaka atvinnulífsins. Öllum atvinnurekendum með rekstur í þeim starfsgreinum sem stéttarfélögin tíu hafa gert kjarasamning um, er skylt að greiða lífeyrisiðgjöld starfsmanna sinna til samtryggingar Gildis. Óheimilt er að greiða í samtryggingarsjóði annarra lífeyrissjóða.
- Af hverju greiði ég lífeyrisiðgjald hjá Gildi?
Samkvæmt lögum er öllum launþegum skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar. Greiðslur í lífeyrissjóð hefjast í næsta mánuði eftir 16 ára afmæli og lýkur í þeim mánuði sem 70 árin eru fyllt.
Tíu stéttarfélög eiga aðild að Gildi auk Samtaka atvinnulífsins. Öllum atvinnurekendum með rekstur í þeim starfsgreinum sem stéttarfélögin tíu hafa gert kjarasamning um, er skylt að greiða lífeyrisiðgjöld starfsmanna sinna til samtryggingar Gildis. Óheimilt er að greiða í samtryggingarsjóði annarra lífeyrissjóða.
- Hvað er séreignarsparnaður?
Séreignarsparnaður er viðbótarlífeyrissparnaður og séreign viðkomandi. Þetta er einn hagkvæmasti sparnaður sem völ er á. Launþegi sem leggur 2-4% fyrir mánaðarlega af launum sínum fær 2% viðbótarframlag frá vinnuveitanda sem í reynd er þá hrein launauppbót. Líkt og með annan lífeyrissparnað er ekki greiddur skattur af honum fyrr en við útgreiðslu.